Markaðstækifæri kortlögð í nýrri könnun

Gallup könnun framkvæmd fyrir Icelandic Lamb í nóvember s.l. kannaði viðhorf og neyslu íslenskra neytenda á lambakjöti. Samkvæmt niðurstöðum hennar felst marktæk virðisaukning í  notkun sérstöðutilvísana á umbúðir íslensks lambakjöts, og að greiðsluvilji neytenda fyrir íslenskt lambakjöt í umbúðum merktum evrópskum upprunatilvísunum eða „NON GMO“ vottun sé 10-15% hærri en fyrir kjöt í ómerktum umbúðum. Hingað til hafa bændur og framleiðendur stuðst við erlend fordæmi við mat á markaðsáhrifum uppruna- og heilnæmistilvísana. Niðurstöðurnar eru þarft innlegg í umræðu um notkun sérstöðumerkinga sem aukið geta verðmætasköpun innlendrar matvælaframleiðslu. Niðurstöðurnar gefa þó einnig til kynna vissar hindranir á markaði en einungis 47% svarenda töldu lambakjöt alltaf vera án erfðabreyttra innihaldsefna þrátt fyrir að notkun erfðabreytts fóðurs til sauðfjárræktar hafi verið óheimil síðastliðin fimm ár. Einnig sögðust einungis 30% svarenda þekkja evrópskar upprunatilvísanir en 28% svarenda segjast tilbúin til þess að borga 11-15% hærra verð fyrir matvöru merkta slíkum tilvísunum. Sannar það markaðslegt gildi þeirra og sýnir þörf á aukinni kynningu á upprunatilvísunum og lögmæti þeirra. Aukinn greiðsluvilji fyrir upprunavottuð matvæli er til marks um þau sóknarfæri er felast í aukinni notkun framleiðenda á upprunatilvísunum.